20.01.2020 14:58

Úrslit úr Skíðafélagsmóti og skíðagöngunámskeið

Úrslitin úr Skíðafélagsmóti með hefðbundinni aðferð eru komin hér á síðuna undir liðnum úrslit.  Fyrsta mót vetrarins 2019-20 var haldið í Selárdal í gær þrátt fyrir hvassa suðvestanátt hér um slóðir en við njótum góðs af því hversu skjólgóður Selárdalur er í sv-átt, aðeins voru dálitlar hviður öðru hverju og skúrir.  Skíðafélag Strandamanna þakkar keppendum fyrir þátttökuna og starfsfólki mótsins fyrir vel unnin störf.  Sérstakar þakkir til Öllu og Kötlu fyrir að halda út í tímatökunni þrátt fyrir nokkuð erfiðar aðstæður.

Fyrsta þriggja daga skíðagöngunámskeiði Skíðafélags Strandamanna lauk í gær í Selárdal, námskeiðið hófst á föstudagskvöld og voru mjög góðar aðstæður og veður bæði á föstudag og laugardag í hægviðri, dálitlu frosti og nýjum snjó, í gær sunnudag hlánaði hins vegar og voru sviptingar í veðri en náðist að ljúka námskeiðinu þrátt fyrir það.  Skíðafélag Strandamannna þakkar þátttakendum á námskeiðinu fyrir komuna sem og þjálfarar og þau sem aðstoðuðu við framkvæmd námskeiðsins á einn eða annan hátt.  Sérstakar þakkir fá Alla og Halldór fyrir ljúffenga kjötsúpu sem var í boði í hádeginu á laugardag í skíðaskálanum í Selárdal fyrir þátttakendur og leiðbeinendur námskeiðsins.  Við minnum á að seinna þriggja daga skíðagöngunámskeið vetrarins verður haldið 21.-23 febrúar í Selárdal, skráning í það námskeið fer vel af stað en skráningar skal senda á netfangið [email protected]

Eftir að nærri tíu daga hléi á skíðaiðkun vegna veðurs hér á Ströndum lauk síðasta fimmtudag er því búið að vera mikið um að vera í Selárdal, því auk námskeiðshalds og Skíðafélagsmótsins  náðum við að halda skíðaæfingar fyrir börn og unglinga fimmtudag og föstudag auk vinaæfingar á laugardag.

Stefnt er að því að á morgun þriðjudag 21. janúar verði skíðagöngubraut tilbúin í Selárdal um kl. 14 þar sem spár gera ráð fyrir að veður verði orðið gott upp úr hádegi á morgun.

 

Flettingar í dag: 98
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 27654
Samtals gestir: 3296
Tölur uppfærðar: 5.12.2022 02:33:06