19.03.2014 11:37

Birkir og Katrín fyrst í 20 km

Birkir Þór Stefánsson og Katrín Árnadóttir voru fyrst í mark í 20 km vegalengdinni í 20.  Strandagöngunni sl. laugardag.  Birkir hlaut því að launum Sigfúsarbikarinn til varðveislu næsta árið.  Birkir tók afgerandi forustu í göngunni þegar 2 km voru búnir af göngunni þrátt fyrir að þurfa að ganga fyrstur í spori sem snjóað hafði í rétt fyrir gönguna og hélt hann forustunni allan tímann og kom rúmum 2 mínútum á undan næst manni í mark.  Þetta var í annað skiptið sem Birkir hlýtur Sigfúsarbikarinn en það var árið 2008 sem hann var fyrstur í mark þegar startað var við Víðivelli í Staðardal og gengið þaðan með veginum til Hólmavíkur þar sem markið var við Félagsheimilið á Hólmavík.

 

Úrslitin úr Strandagöngunni er að finna á heimasíðu Strandagöngunnar strandagangan.123.is

14.03.2014 13:49

Strandagangan á morgun 15. mars

20. Strandagangan verður haldin á morgun laugardaginn 15. mars, start í 1 km vegalengdina er kl. 12.30 og í 5, 10 og 20 km kl. 13.  Veðurspáin gerir ráð fyrir dálítilli snjókomu fyrir hádegi á morgun en eftir hádegi á úrkoman að minnka og hlýna og snúast í suðvestanátt sem er yfirleitt hæg í Selárdal.   Brautin verður troðin í dag eftir kl. 15 og er stefnt á að troða hana aftur á morgun rétt fyrir start.

 

Við minnum á:

Skráningar skal senda á netfangið [email protected]

Einnig hægt að skrá sig á staðnum en skráningu lýkur kl. 12

Start í 1 km kl. 12.30

Start í 5, 10 og 20 km kl. 13

Muna að skrá sveitir í sveitakeppnina í 5, 10 og 20 km vegalengdunum

Eftir göngu er hægt að fara í sturtur og heita potta í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík.

Fyrirlestur hjá Sævari Birgissyni í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 15.40

Kaffihlaðborð og verðlaunaafhending hefst að fyrirlestri loknum, í fyrsta lagi kl. 16

Númerum skal skilað við innganginn í Félagsheimilið og gilda þau sem aðgöngumiði að kaffihlaðborðinu, frítt fyrir starfsmenn aðrir greiða 1.000 kr. á kaffihlaðborðið.

13.03.2014 13:10

Undirbúningsfundur fyrir Strandagönguna

Í kvöld fimmtudaginn 13. mars kl. 20 verður haldinn undirbúningsfundur fyrir Strandagönguna.  Fundurinn verður heima hjá Rósmundi Númasyni formanni Skíðafélags Strandamanna Víkurtúni 10 Hólmavík.  Allir þeir sem hafa áhuga á að vinna að undirbúningi göngunnar velkomnir.

13.03.2014 13:08

Sævar Birgisson með fyrirlestur

Sævar Birgisson ólympíufari verður meðal þátttakenda í Strandagöngunni 2014.  Sævar er nýlega kominn frá Ólympíuleikunum í Sotsí í Rússlandi þar sem hann var fyrsti Íslendingurinn í tuttugu ár til að taka þátt í Skíðagöngu á Ólympíuleikum.  Eftir gönguna verður Sævar með stuttan fyrirlestur í Félagsheimilinu á Hólmavík þar sem hann mun segja frá þátttöku sinni á Ólympíuleikunum og hann mun einnig tala um markmiðssetningu og leiðir til að ná markmiðum sínum.  Fyrirlesturinn hefst kl. 15.40.

12.03.2014 13:16

Skíðaleikjahátíð

Sunnudaginn 16. mars kl. 10-12 verður haldin Skíðaleikjahátíð í Selárdal.  Þá verður keppni lögð til hliðar og farið í skemmtilegustu skíðaleikina t.d. stórfiskaleik, hákarlaleik og leigubílaleikinn auk þess sem gerðar verða hólabrautir og þrautabrautir niður brekkur.  Ef þátttaka verður góð verður skipt í hópa eftir aldri.  Eftir skíðaleikjahátíðina eða kl. 12.30 býður þátttakenda pizzahlaðborð á Café Riis á Hólmavík fyrir 1.200 kr.  Skráningar á skíðaleikjahátíðina skal senda á netfangið [email protected] í síðasta lagi á föstudagskvöldið 14. mars.

11.03.2014 23:27

Úrslit úr sprettgöngu og Skíðafélagsmóti

Það er búið að setja inn úr þeim tveimur heimamótum sem við höfum haldið í vetur.

Sprettgangan var haldin 1. mars í frekar erfiðum aðstæðum, strekkingsvindi og slyddu og blautum nýjum snjó.  Það voru gengnar 2 umferðir fyrst í aldursflokkum og síðan með forgjöf þar sem tíminn úr fyrri umferðinni réði forgjöfinni.  Þetta fyrirkomulag er sannkölluð martröð tímatökufólks þar sem nánast allir koma á sama tíma í mark, aðeins náðist tími á 1. manni í mark og eru aðrir tímar ágiskun.

Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð var haldið laugardaginn 8. mars og var genginn hringur sem var 2,9 km langur, þannig að 5 km vegalengdin er í raun 5,8 km og 10 km eru 11,6 km.

11.03.2014 16:29

Troðin braut í Selárdal

Í dag þriðjudaginn 11. mars var búið að troða 10 km Strandagönguhringinn um kl. 16, allir á skíði.

09.03.2014 13:04

Troðin braut í Selárdal

Í dag sunnudaginn 9. mars verður troðin braut í Selárdal tilbúin kl. 16.  Kl. 16-17.30 verður skíðaæfing í Selárdal.  Vindur á að ganga niður í dalnum þegar líður á daginn, en vonskuveður var í gærkvöld og nótt með snjókomu og skafrenningi.

07.03.2014 13:36

Skíðafélagsmót á morgun

Á morgun laugardaginn 8. mars verður haldið Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð einnig nefnt Kjartansmót í Selárdal og hefst mótið kl. 12.  Keppt er í öllum flokkum og eru vegalengdir í karlaflokki 10 km í kvennaflokki 5 km, 15-16 ára 5 km, 13-14 ára 3,5 km, 11-12 ára 2,5 km, 9-10 ára 2 km og 8 ára og yngri 1 km.  Fyrsti maður í 10 km vegalengdinni hlýtur Kjartansbikarinn til varðveislu næsta árið, en bikarinn var gefinn til minningar um Kjartan Jónsson skipstjóra á Hólmavík.

 

Við minnum á aðalfund Skíðafélags Strandamanna sem haldinn verður í kvöld kl. 20.  Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem farið verður yfir stöðu mála við undirbúning Strandagöngunnar.

 

Í dag kl. 17-18.30 er skíðaæfing í Selárdal æfingin er svokölluð vinaæfing þar sem má bjóða vinum eða vinkonum að koma með á æfinguna, þeir sem geta komi með aukaskíði, skó eða stafi í krakkastærðum á æfinguna ef einhvern vantar.

07.03.2014 13:33

06.03.2014 09:40

Sveitakeppni í Strandagöngunni

 

Í Strandagöngunni verður boðið upp á sveitakeppni eins og verið hefur undanfarin ár í 5, 10 og 20 km vegalengdum en að þessu sinni verður ekki sveitakeppni í 1 km.  Þrír eru í hverri sveit og gildir samanlagður tími þeirra í göngunni og verða veitt verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í hverri vegalengd.

 

Útlitið er mjög gott fyrir Strandagönguna, nægur snjór er í Selárdal og verður genginn 10 km hringur svipaður og var í göngunni í fyrra.  Í þessari viku hafa verið lagðar brautir nær daglega og verið frábært færi.

05.03.2014 17:41

Aðalfundur á föstudaginn

Aðalfundur Skíðafélags Strandamanna verður haldinn föstudaginn 7. mars í kaffistofu Hólmadrangs og hefst kl. 20.  Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem fundurinn verður undirbúningsfundur fyrir Strandagönguna.  Aðalfundur félagsins hafði áður verið auglýstur 21. febrúar en ekki var hægt að halda hann þann dag.

03.03.2014 21:52

Skráning er hafin í Strandagönguna

Skráning í Strandagönguna 2014 er hafin.   Skráningar skal senda á netfangið [email protected] í skráningunni þurfa að koma fram eftirfarandi upplýsingar:

Nafn keppenda

Fæðingarár

Félag

Vegalengd

Gsm-símanúmer

 

03.03.2014 13:17

Braut í Selárdal

Í dag mánudaginn 3. mars verður troðin braut í Selárdal tilbúin eftir kl. 15.  Brautin verður 3 km og líklega einnig gert 10 km spor á sleða.

28.02.2014 13:28

Skíðagöngunámskeið og sprettganga

Þar sem veður hefur verið mjög óhagstætt undanfarnar vikur hefur mótaskráin raskast mikið hjá okkur, því þarf að breyta mótaskrá í samræmi við það og ef veður leyfir verður haldin sprettganga á morgun laugardaginn 1. mars kl. 12 í Selárdal, gengið verður með hefðbundinni aðferð.  Mótið verður með sama sniði og undanfarin ár, fyrst verður ræst út í hverjum aldursflokki fyrir sig og í lokin verður ræst út í opnum flokkum karla og kvenna með forgjöf.

 

Skíðagöngunámskeið sem auglýst hefur verið, verður samkvæmt áætlun á morgun í Selárdal kl. 14.  Allir velkomnir.

 

 

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 27606
Samtals gestir: 3296
Tölur uppfærðar: 5.12.2022 01:50:38