21.02.2014 13:04

Aðafundur í kvöld

Við minnum á aðalfund Skíðafélags Strandamanna sem haldinn verður í kvöld kl. 8 í kaffistofu Hólmadrangs á Hólmavík.  Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.  Nýir félagar eru sérstaklega velkomnir.

 

Þar sem veðurspáin fyrir helgina er ekki góð er Skíðafélagsmóti með hefðbundinni aðferð sem samkvæmt mótaskrá átti að vera á laugardaginn 22. febrúar frestað um óákveðinn tíma. 

 

Skíðagöngunámskeið sem auglýst hefur verið er þó enn á dagskrá á morgun laugardaginn 22. febrúar kl. 15 en ef veðurútlit versnar meir verður því frestað, fylgist með upplýsingum hér á þessari síðu eða hafið samband við Rósmund í síma: 8921048

17.02.2014 23:15

Skíðagöngunámskeið

Skíðagöngunámskeið

 

Skíðafélag Strandamanna auglýsir skíðagöngunámskeið fyrir almenning næstu helgar fram að Strandagöngu sem haldin verður 15. mars.   Fyrsta námskeiðið verður haldið laugardaginn 22. Febrúar kl. 15 í Selárdal.    Yfirleiðbeinandi á námskeiðinu verður hinn fimmfaldi Vasafari Rósmundur Númason.  Möguleiki verður á að fá lánaðan skíðaútbúnað (skíði, stafi og skó) á námskeiðinu en þá þarf að hafa samband við Rósmund áður.  Kennd verða undirstöðuatriði í hefðbundinni skíðagöngu.  Rósmundur tekur við skráningum á námskeiðin í síma 8921048 eða á facebook.  Hægt er að mæta á öll námskeiðin eða einungis eitt skipti.   Námskeiðin verða á eftirtöldum dögum:

Laugardagurinn 22. Febrúar kl. 15

Laugardagurinn 1. Mars kl. 14

Laugardagurinn 8. Mars kl. 15

Tímasetningar geta breyst ef veður er óhagstætt og eru þá sunnudagar til vara.  Nánari upplýsingar verða á þessari síðu

 

17.02.2014 18:04

Braut í Selárdal

Í dag mánudaginn 17. febrúar er 6 km braut í Selárdal.  Aðstæður eru frábærar, gott rennsli og neglufatt á multigradeklístri.  Veðrið í dag er einnig mjög gott logn og 3 gráðu frost, ekki er sólbráð í brautinni þar sem sólin er ennþá það lágt á lofti og  brautin liggur að mestu leyti með fram fjallshlíðinni.  Brautin er að hluta til sú sama og var gengin í Strandagöngunni í fyrra og er kominn nægur snjór núna til að leggja svipaða braut og í Strandagöngunni í fyrra þ.e. alla leið fram að Gilsstöðum.

12.02.2014 19:33

Aðalfundur

Aðalfundur Skíðafélags Strandamanna verður haldinn í kaffistofu Hólmadrangs á Hólmavík föstudaginn 21. febrúar kl. 20.  Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.

 

Stjórn Skíðafélags Strandamanna

05.02.2014 13:31

Skíðabraut dagsins

Í dag miðvikudaginn 5. febrúar verður troðinn ca 3 km braut í Selárdal tilbúin kl. 15.

05.02.2014 00:00

Fjallaferð

Á síðuna er komið myndaalbúm með myndum úr fjallaferð sem farin var fram Selárdal 7. apríl 2013.   Lagt var af stað af bílastæðinu á  Brandsholti um kl. 13.30 og gengið fram Selárdalinn, um kl. 15.20 var snúið við Kringlugil og komið aftur á Brandsholt rúmlega klukkutíma síðar.  Gengnir voru 9 km fram dalinn og aftur til baka eða samtals 18 km.   Með í för var snjósleði Skíðafélagsins með spora aftaní.  Ökumaður sleðans var Kristján Tryggvason.

Síðastliðinn vetur fórum við í 3 fjallaferðir og voru þær allar í apríl í nægum snjó og frábærum aðstæðum.  Ein ferðin var farin fram að Gilsstöðum þar sem nýja húsið var skoðað undir leiðsögn Rósmundar og þar snæddum við nestið okkar, að því loknu gengum við hátt upp í hlíðina austanverða og fengum frábært rennsli aftur niður í dalinn áleiðis að Brandsholti.

Í síðustu ferðinni fórum við fram Selárdalinn að Kópsstaðagili og fórum upp með því alla leið upp úr dalnum, síðan var gengið upp í heiðina þar til víð sáum yfir að sæluhúsinu á Trékyllisheiði og endað á löngu rennsli niður að Bólsstað, þaðan var svo gengið fram á Brandsholt.

03.02.2014 21:39

Mótaskrá

 

 

Mótaskrá fyrir veturinn er komin á síðuna í henni eru 8 heimamót auk Strandagöngunnar og einnig þau mót sem Strandamenn eru líklegir til að taka þátt í.   Samkvæmt mótaskránni er fyrsta mót vetrarins Skíðafélagsmót með frjálsri aðferð sem haldið verður í Selárdal 8. febrúar.

02.02.2014 20:52

Úrslit og myndir

Það er búið að setja inn á síðuna úrslit úr 4 mótum sem haldin voru síðastliðinn vetur.   Til að sjá þau er smellt á úrslit hér efst á síðunni.

 

Undir liðnum myndaalbúm hér efst á síðunni hafa verið settar myndir frá Arionbankamóti sem haldið var 28. mars 2013 og Sparsjóðsmóti sem haldið var 1. apríl 2013

01.02.2014 18:13

Skíðaæfingar

 

Skíðaæfingar hjá Skíðafélagi Strandamanna verða þrisvar í viku í vetur:

Miðvikudagar kl. 17.30-18.30

Föstudagar kl. 17-18.30

Sunnudagar kl. 14-15.30

Æfingar verða í Selárdal ef veður og snjóalög leyfa, ef veður er of slæmt til að hægt sé að fara á skíði verður farið á línuskauta í íþróttahúsinu á Hólmavík.  Sent verður sms í síðasta lagi í hádeginu daginn sem æfingin er varðandi það hvort af æfingu verður og hvar hún verður haldin.   Þeir sem hafa áhuga á að vera með og fá sms um æfingarnar geta hringt eða sent sms í síma hjá Ragnari Bragasyni en númerið er 8933592.   Börnum á leikskólaaldri er velkomið að vera með en gert er ráð fyrir því að þau séu í fylgd foreldris á æfingunni.   Á æfingunum verður kennd skíðaganga bæði með hefðbundinni aðferð og frjálsri aðferð.  Hver æfing byrjar á upphitun, farið er í tækniæfingar, gengið stafalaust og mikil áhersla er á að fara í skemmtilega skíðaleiki.   Það fer mikið eftir aðstæðum hvert viðfangsefnið er á hverri æfingu en miðað er við að þegar færið er gamall snjór (klísturfæri) þá er frjáls aðferð (skaut) en þegar er nýr snjór (baukafæri) er æfingin með hefðbundinni aðferð.

 

07.05.2013 09:54

Uppskeruhátíð á fimmtudaginn

Uppskeruhátíð Skíðafélags Strandamanna verður haldin í Félagsheimilinu Baldri á Drangsnesi fimmtudaginn 9. maí kl. 15.  Á boðstólum verða kaffiveitingar og er mælst til þess að hver fjölskylda komi með eina sort með sér.  Byrjað verður á að fara í sund eða pottana, að því loknu verða afhent verðlaun fyrir mót vetrarins.

19.04.2013 21:48

Boðganga á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag 21. apríl kl. 17 verður haldin boðganga í Selárdal.  Fyrirkomulag verður svipað og verið hefur undanfarin ár, 3 eru í hverju liði og raðað í lið þannig að þau verði sem jöfnust að styrkleika.  Boðgangan er um leið firmakeppni þar sem fyrirtæki geta keypt sér lið.  Þeir sem ætla að taka þátt í boðgöngunni hafi samband við Ragnar í síma 8933592 eða senda póst á netfangið [email protected] einnig er auglýst eftir fyrirtækjum sem hafa áhuga á að kaupa lið.

 

Á morgun laugardaginn 20 apríl er ætlunin að ganga fram að Gilsstöðum á skíðum og ætlar Rósmundur að bjóða þar skíðamönnum upp á hressingu og skoðunarferð í húsið á Gilsstöðum sem nýlokið er við að byggja.  Öllum er velkomið að slást í hópinn og verður lagt af stað frá Brandsholti kl. 17.

16.04.2013 12:38

Orkugangan laugardaginn 20. apríl

Orkugangan verður haldin laugardaginn 20. apríl.  Nánari upplýsingar eru á heimasíðu göngunnar Orkugangan.is

13.04.2013 23:44

Fossavatnsgangan

Nú styttist í Fossavatnsgönguna sem haldin verður á Ísafirði 4. maí og er fólk hvatt til að skrá sig sem fyrst í gönguna.  Útlit er fyrir fjölmenna göngu og hefur fjöldi erlendra keppenda skráð sig til leiks.  Hægt er að skrá sig í gegnum heimasíðu göngunnar fossavatn.com

 

Það er ekki úr vegi að rifja upp árangur Strandamanna í göngunni í fyrra þar sem það komst ekki í verk eftir gönguna hjá undirrituðum vegna sauðburðaranna.  Níu strandamenn tóku þátt í göngunni og var árangur þeirra eftirfarandi: 

Í 7 km göngu karla var Stefán Snær Ragnarsson í 1. sæti á tímanum 23.20 mínútum og var hann 1.44 mínútum á undan næsta keppanda.  Friðrik Heiðar Vignisson var 6. á tímanum 27.41 mínútum og Jón Haukur Vignisson var 16. á tímanum 33.46 mínútur.

Í 10 km göngu karla náði Númi Leó Rósmundsson 3. sæti á tímanum 45.04 og var hann aðeins 1.10 mínútum á eftir 1. manni.  Branddís Ösp Ragnarsdóttir var einnig þriðja í kvennaflokki í 10 km á tímanum 47.38 og var 3.40 mínútum frá 1. sætinu. 

Í 20 km göngu í flokki karla 35-49 ára varð Vignir Örn Pálsson 5. af 15 keppendum á tímanum 1.30.27.

Í 50 km göngu í flokki karla 35-49 ára náði Birkir Þór Stefánsson 6. sæti af 21 keppanda á tímanum 3.08.30 og var hann aðeins rúmum 5 mínútum á eftir sigurvegaranum og aðeins tæpum 2 mín. á eftir fyrsta Íslendingnum í göngunni.  Í sama flokki var Ragnar Bragason 10. á tímanum 3.23.09.  Í flokki karla 50-64 ára náði Rósmundur Númason 6. sæti af 14 keppendum á tímanum 4.08.57.

12.04.2013 13:34

Skiptiganga á morgun laugardag 12. apríl

Ef veður leyfir verður haldin skiptiganga á morgun laugardaginn 13. apríl í Selárdal kl. 14.  Í skiptigöngu er fyrst genginn 1 hringur með hefðbundinni aðferð og síðan skipt um skíði og annar hringur genginn með frjálsri aðferð.  Mótið er um leið héraðsmót í skíðagöngu og er haldið sameiginlega af HSS og SFS.  Veður hefur verið heldur óstöðugt síðustu daga en útlit er fyrir að rofi til á morgun þannig að hægt verði að halda mótið.  Fylgist með fréttum á þessari síðu því ef veðurútlit breytist gæti tímasetningin breyst.

08.04.2013 11:26

20 km braut í Selárdal

Í gær fórum við í ferð fram á Selárdal og gengum fram að fremra-Hvanneyrargili í frábæru veðri og færi.  Ferðin frameftir tók klukkutíma og fimmtíu mínútur en bakaleiðina fórum við á fimmtíu mínútum.  Alls voru 15 manns sem fóru í ferðina og var yngsti skíðakappinn aðeins 8 ára gamall.   Lagt var spor með sleða og spora og ætti það að vera í lagi í dag ef einhver hyggur á skíðaferð í dag.  Leiðin er ca 20 km ef farið er af Brandsholti.

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 27629
Samtals gestir: 3296
Tölur uppfærðar: 5.12.2022 02:11:43