Færslur: 2014 Mars

28.03.2014 22:24

Fjallaferð og skiptiganga

Á morgun laugardaginn 29. mars verður farið í fjallaferð úr Selárdal yfir í Bjarnarfjörð.  Farið verður af stað frá Brandsholti í Selárdal kl. 11 og gengið yfir Bjarnarfjarðarháls og niður Sunndal í Bjarnarfirði.  Áætlað er að vera við Skarð í Bjarnarfirði kl. 13 og þaðan er auðveld ganga niður að Laugarhóli ef snjór er nægur alla leið.  Þeir sem ekki treysta sér alla leið geta slegist í hópinn við Skarð, en þaðan eru ca. 3 km niður að Laugarhóli.  Öll leiðin úr Selárdal að Laugarhóli eru a.m.k. 15 km.  Farið verður á sleða með spora á undan göngumönnum en einnig eru líkur á að það verði gott færi til að skauta.  Á Laugarhóli verður hægt að fara í sund og heitan pott í Gvendarlaug hins góða að göngu lokinni.

 

Á sunnudaginn verður svo HSS-mót í Selárdal þar sem keppt verður í skiptigöngu í öllum flokkum 9 ára og eldri, en 8 ára og yngri ganga 1 km án tímatöku.  Skiptiganga er þannig að fyrst er gengið með hefðbundinni aðferð síðan skipt um skíði og stafi og seinni hlutinn genginn með frjálsri aðferð, ekki er þó skylda að skipta um skíði og stafi.

24.03.2014 22:09

Hettupeysur

Verið er að taka saman pöntun á hettupeysum.  Þeir sem hafa áhuga á að fá sér bláar hettupeysur merktar Skíðafélagi Strandamanna hafi samband við Þuríði fyrir miðvikudaginn 26. mars annaðhvort í síma 6936803, tölvupósti [email protected] eða á facebook.

Peysurnar eru fáanlegar í  stærðum xs- xxl í fullorðins

Og barnapeysurnar eru í stærðum   S 104 CM 3-4 ára M 116 CM 5-6 ára L 128 CM 7-8 ára XL 140 CM 9- 10 ára  XXL 152 CM 11- 12 ára

Félagsmenn fá peysurnar á betri kjörum en utanfélagsmenn.

 

24.03.2014 10:11

Úrslit úr Skíðaskotfimi og Skíðafélagsmóti

Úrslitin úr Skíðafélagsmóti með frjálsri aðferð og skíðaskotfimi sem haldin voru um helgina er komin á síðuna undir liðnum úrslit.

21.03.2014 14:04

Skíðatrimm fyrir fullorðna

Þar sem við höfum fundið fyrir áhuga hjá mörgum fullorðnum til að prófa og iðka skíðagöngu ætlum við að gera tilraun með að bjóða upp á sérstakan skíðatrimmtíma fyrir fullorðna og verður fyrsti tíminn á laugardaginn 22. mars kl. 16-17.30 í Selárdal.  Hægt verður að fá tilsögn fyrir þá sem óska eftir því og eins er möguleiki að fá lánaðan útbúnað á staðnum, bæði skíði, skó og stafi, best er að þeir sem ætla að fá lánaðan útbúnað hafi samband áður og gefi upp skóstærð og hæð (Rósmundur s. 8921048 eða Ragnar s. 8933592).  Segja má að hugsunin með þessum tímum sé svipuð og er t.d. í skokkhópum þar sem fólk hittist reglulega og iðkar sína hreyfingu saman í góðum félagsskap með möguleika á að fá tilsögn.  Ef þetta fyrirkomulag reynist vel munum við halda áfram með þennan tíma á laugardögum kl. 16 út veturinn (til loka apríl).

 

 

21.03.2014 13:57

Skíðafélagsmót og skíðaskotfimi

Það verður ýmislegt um að vera í Selárdal um helgina ef veður leyfir, á laugardaginn verður Skíðafélagsmót með frjálsri aðferð haldið kl. 18 í Selárdal, keppt verður í sömu flokkum og vegalengdum og var í Skíðafélagsmóti með hefðbundinni aðferð sem haldið var 8. mars.  Ræst verður með hálfrar mínútu starti.

Á sunnudaginn kl. 14 verður keppt í Skíðaskotfimi með frjálsri aðferð keppt verður í öllum aldursflokkum 9 ára og eldri.  Ræst verður með hópstarti.  Það skal tekið fram svo að enginn verði hræddur að ekki verða notuð skotvopn í keppninni heldur er notuð sú aðferð að kasta priki inn í lítinn hring, einn refsihringur verður fyrir hvert skot sem klikkar eins og er í venjulegri skíðaskotfimi.  Á sama tíma verður venjuleg æfing fyrir krakka 8 ára og yngri.

19.03.2014 22:49

Strandagangan 2014

Strandagangan 2014

Starfsmenn:

Göngustjóri:  Þorsteinn Sigfússon

Brautarstjóri:  Kristján Hólm Tryggvason

Brautarlagning: Kristján Hólm  Tryggvason

Brautarverðir:  Úlfar Örn Hjartarson, Pétur Matthísson og Sigurður Árni Vilhjálmsson

Ræsir:  Þorsteinn Sigfússon

Tímaverðir:  Jón Stefánsson, Reynir Björnsson, Sigurlaug Stefánsdóttir, Steinar Þór Baldursson, Guðbrandur Ásgeir Sigurgeirsson

Ritari:  Bryndís Sveinsdóttir Hrefna Guðmundsdóttir og Dagbjört H. Torfadóttir

Djúsgjafar:  Lýður Jónsson, Theodór Þórólfsson

Skráning:  Aðalbjörg Óskarsdóttir

Tölvuvinnsla:  Aðalbjörg Óskarsdóttir og Kristján Hólm Tryggvason

Ljósmyndun:  Ingimundur Pálsson

 

Veitingar:

Þuríður Signý Friðriksdóttir, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Kristján Hólm Tryggvason, Aðalbjörg Óskarsdóttir, Rósmundur Númason, Marta Sigvaldadóttir, María Mjöll Guðmundsdóttir, Sólveig Jónsdóttir, Aðalheiður Ragnarsdóttir, Jóna Þórðardóttir, Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir, Guðrún Smáradóttir, Bryndís Sveinsdóttir, Ragnhildur Elíasdóttir, Jóhanna Rósmundsdóttir, Salbjörg Engilbertsdóttir.

 

Braut:

Vegalengdir: 1 km, 5 km, 10 km og 20 km.

Startað á Brandsholti.  1 km brautin sneri rétt fyrir framan Brandsholt og kom til baka yfir Brandsholtið samhliða hinni brautinni fyrir neðan markið þaðan gengið út neðan við Syrpu og komið inn í brautina utan við holtið og þaðan gegnum hliðið, framhjá Syrpu og í markið.  10 km hringurinn var þannig:  Start á Brandsholti gengið sem leið liggur fram á tún á Geirmundarstöðum þar tekin lykkja upp í brekkuna og aftur niður með fjárhúsum og íbúðarhúsi, farið yfir veginn og niður á eyrarnar niður í Jónshólma, þaðan gengið fram hólma fram að Gilsstöðum í gegnum hliðið, meðfram Torfholti, farið fram með íbúðarhúsinu og upp rétt fyrir framan það, snúið við Gunnarslund og gengið til baka eins og leið liggur með hlíðinni yfir rafmagnsgirðinguna skammt ofan við hliðið að Gilsstöðum, þaðan rennsli niður á flóðin, gengið upp Sandhólalautina við Geirmundarstaði, yfir Sigurðargarð að Einbúa og snúið þar, rennsli niður að Sandhólaskarði, gengið yfir hólinn á heimatúninu og þaðan langt rennsli niður túnið, síðan gengið með fram hlíðinni, fyrir ofan Brandsholt, fram hjá Syrpu, upp Rósabrekku og út á Múlaengi, þar gengið með fram hlíðinni út á enda á Múlaengi og þar snúið við og gengið til baka niður í Kistu, snúið í króknum, þaðan yfir hólinn gengið neðan við Syrpu og í mark á Brandsholti.  Í 5 km vegalengdinni var snúið við á hólnum á heimatúninu.

 

Veður:

Fyrst hæg Suðaustlæg átt síðar Suðvestanhviður á stöku stað í brautinni, skýjað og væta öðru hvoru, hiti um frostmark við start en hlýnaði fljótlega eftir það í 4°c.

Færi: 

Nýr blautur snjór ofan á gömlum snjó, snjóaði töluvert um nóttina og morguninn fyrir göngunaá .  Flestir gengu á sandpappír eða heitum bauk og a.m.k. 1 á Rossa special klístri með bauk yfir.  Mun verra rennsli á seinni hringnum hjá þeim sem gengu 20 km vegna bleytu í sporunum.

Keppendur:

Ræstir alls 76 keppendur, 74 luku keppni, yngsti keppandinn var 4 ára og sá elsti 81 árs.  Keppendur í 1 km voru 19 talsins, í 5 km voru 22, 10 gengu 10 km og 25 gengu 20 km vegalengdina.

Verðlaun:

Þrír fyrstu keppendur í hverjum flokki fengu bikar.  Allir keppendur í göngunni og starfsmenn fengu blátt buff merkt Strandagöngunni.  Í tilefni þess að Strandagangan var gengin í 20. skipti voru veitt heiðursverðlaun þeim sem hafa lokið 10 og 20 göngum.

Þeir sem hafa lokið 10 göngum og tóku þátt í Strandagöngunni 2014:

Stefán Snær Ragnarsson, Hjörtur Þór Þórsson, Þórhallur Ásmundsson, Bragi Guðbrandsson, Ingvar Pétursson, Magnús Eiríksson, Rósmundur Númason, Úlfar Örn Hjartarson, Vignir Örn Pálsson, Birkir Þór Stefánsson, Jón Vilhjálmur Sigurðsson, Magnús Steingrímsson og Marta Sigvaldadóttir.

20 göngur: Ragnar Bragason

 

Skíðafélag Strandamanna þakkar keppendum fyrir þátttökuna í gönguna, starfsmenn göngunnar og fólkið sem sá um kaffihlaðborðið fá bestu þakkir fyrir vel unnin störf.  Kaupfélag Steingrímsfjarðar fær kærar þakkir fyrir stuðning sinn við gönguna 20. Árið í röð.  Skíðafélag Strandamanna þakkar þessum aðilum kærlega fyrir stuðninginn sem og öllum þeim sem komu að göngunni á einhvern hátt og gerðu framkvæmd hennar mögulega

19.03.2014 11:37

Birkir og Katrín fyrst í 20 km

Birkir Þór Stefánsson og Katrín Árnadóttir voru fyrst í mark í 20 km vegalengdinni í 20.  Strandagöngunni sl. laugardag.  Birkir hlaut því að launum Sigfúsarbikarinn til varðveislu næsta árið.  Birkir tók afgerandi forustu í göngunni þegar 2 km voru búnir af göngunni þrátt fyrir að þurfa að ganga fyrstur í spori sem snjóað hafði í rétt fyrir gönguna og hélt hann forustunni allan tímann og kom rúmum 2 mínútum á undan næst manni í mark.  Þetta var í annað skiptið sem Birkir hlýtur Sigfúsarbikarinn en það var árið 2008 sem hann var fyrstur í mark þegar startað var við Víðivelli í Staðardal og gengið þaðan með veginum til Hólmavíkur þar sem markið var við Félagsheimilið á Hólmavík.

 

Úrslitin úr Strandagöngunni er að finna á heimasíðu Strandagöngunnar strandagangan.123.is

14.03.2014 13:49

Strandagangan á morgun 15. mars

20. Strandagangan verður haldin á morgun laugardaginn 15. mars, start í 1 km vegalengdina er kl. 12.30 og í 5, 10 og 20 km kl. 13.  Veðurspáin gerir ráð fyrir dálítilli snjókomu fyrir hádegi á morgun en eftir hádegi á úrkoman að minnka og hlýna og snúast í suðvestanátt sem er yfirleitt hæg í Selárdal.   Brautin verður troðin í dag eftir kl. 15 og er stefnt á að troða hana aftur á morgun rétt fyrir start.

 

Við minnum á:

Skráningar skal senda á netfangið [email protected]

Einnig hægt að skrá sig á staðnum en skráningu lýkur kl. 12

Start í 1 km kl. 12.30

Start í 5, 10 og 20 km kl. 13

Muna að skrá sveitir í sveitakeppnina í 5, 10 og 20 km vegalengdunum

Eftir göngu er hægt að fara í sturtur og heita potta í íþróttamiðstöðinni á Hólmavík.

Fyrirlestur hjá Sævari Birgissyni í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 15.40

Kaffihlaðborð og verðlaunaafhending hefst að fyrirlestri loknum, í fyrsta lagi kl. 16

Númerum skal skilað við innganginn í Félagsheimilið og gilda þau sem aðgöngumiði að kaffihlaðborðinu, frítt fyrir starfsmenn aðrir greiða 1.000 kr. á kaffihlaðborðið.

13.03.2014 13:10

Undirbúningsfundur fyrir Strandagönguna

Í kvöld fimmtudaginn 13. mars kl. 20 verður haldinn undirbúningsfundur fyrir Strandagönguna.  Fundurinn verður heima hjá Rósmundi Númasyni formanni Skíðafélags Strandamanna Víkurtúni 10 Hólmavík.  Allir þeir sem hafa áhuga á að vinna að undirbúningi göngunnar velkomnir.

13.03.2014 13:08

Sævar Birgisson með fyrirlestur

Sævar Birgisson ólympíufari verður meðal þátttakenda í Strandagöngunni 2014.  Sævar er nýlega kominn frá Ólympíuleikunum í Sotsí í Rússlandi þar sem hann var fyrsti Íslendingurinn í tuttugu ár til að taka þátt í Skíðagöngu á Ólympíuleikum.  Eftir gönguna verður Sævar með stuttan fyrirlestur í Félagsheimilinu á Hólmavík þar sem hann mun segja frá þátttöku sinni á Ólympíuleikunum og hann mun einnig tala um markmiðssetningu og leiðir til að ná markmiðum sínum.  Fyrirlesturinn hefst kl. 15.40.

12.03.2014 13:16

Skíðaleikjahátíð

Sunnudaginn 16. mars kl. 10-12 verður haldin Skíðaleikjahátíð í Selárdal.  Þá verður keppni lögð til hliðar og farið í skemmtilegustu skíðaleikina t.d. stórfiskaleik, hákarlaleik og leigubílaleikinn auk þess sem gerðar verða hólabrautir og þrautabrautir niður brekkur.  Ef þátttaka verður góð verður skipt í hópa eftir aldri.  Eftir skíðaleikjahátíðina eða kl. 12.30 býður þátttakenda pizzahlaðborð á Café Riis á Hólmavík fyrir 1.200 kr.  Skráningar á skíðaleikjahátíðina skal senda á netfangið [email protected] í síðasta lagi á föstudagskvöldið 14. mars.

11.03.2014 23:27

Úrslit úr sprettgöngu og Skíðafélagsmóti

Það er búið að setja inn úr þeim tveimur heimamótum sem við höfum haldið í vetur.

Sprettgangan var haldin 1. mars í frekar erfiðum aðstæðum, strekkingsvindi og slyddu og blautum nýjum snjó.  Það voru gengnar 2 umferðir fyrst í aldursflokkum og síðan með forgjöf þar sem tíminn úr fyrri umferðinni réði forgjöfinni.  Þetta fyrirkomulag er sannkölluð martröð tímatökufólks þar sem nánast allir koma á sama tíma í mark, aðeins náðist tími á 1. manni í mark og eru aðrir tímar ágiskun.

Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð var haldið laugardaginn 8. mars og var genginn hringur sem var 2,9 km langur, þannig að 5 km vegalengdin er í raun 5,8 km og 10 km eru 11,6 km.

11.03.2014 16:29

Troðin braut í Selárdal

Í dag þriðjudaginn 11. mars var búið að troða 10 km Strandagönguhringinn um kl. 16, allir á skíði.

09.03.2014 13:04

Troðin braut í Selárdal

Í dag sunnudaginn 9. mars verður troðin braut í Selárdal tilbúin kl. 16.  Kl. 16-17.30 verður skíðaæfing í Selárdal.  Vindur á að ganga niður í dalnum þegar líður á daginn, en vonskuveður var í gærkvöld og nótt með snjókomu og skafrenningi.

07.03.2014 13:36

Skíðafélagsmót á morgun

Á morgun laugardaginn 8. mars verður haldið Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð einnig nefnt Kjartansmót í Selárdal og hefst mótið kl. 12.  Keppt er í öllum flokkum og eru vegalengdir í karlaflokki 10 km í kvennaflokki 5 km, 15-16 ára 5 km, 13-14 ára 3,5 km, 11-12 ára 2,5 km, 9-10 ára 2 km og 8 ára og yngri 1 km.  Fyrsti maður í 10 km vegalengdinni hlýtur Kjartansbikarinn til varðveislu næsta árið, en bikarinn var gefinn til minningar um Kjartan Jónsson skipstjóra á Hólmavík.

 

Við minnum á aðalfund Skíðafélags Strandamanna sem haldinn verður í kvöld kl. 20.  Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem farið verður yfir stöðu mála við undirbúning Strandagöngunnar.

 

Í dag kl. 17-18.30 er skíðaæfing í Selárdal æfingin er svokölluð vinaæfing þar sem má bjóða vinum eða vinkonum að koma með á æfinguna, þeir sem geta komi með aukaskíði, skó eða stafi í krakkastærðum á æfinguna ef einhvern vantar.

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 27606
Samtals gestir: 3296
Tölur uppfærðar: 5.12.2022 01:50:38