06.04.2013 12:48

Óbyggðaferð á morgun

Á æfingatíma á morgun sunnudaginn 7. apríl stendur Skíðafélag Strandamanna fyrir skíðagönguferð fram Selárdal.  Áætlað er að leggja af stað frá Geirmundarstöðum kl. 13 og tekur ferðin líklega 2-3 tíma.  Farið verður á sleða með spora með hópnum og gert spor en einnig er ágætt færi til að skauta.  Ágætt er fyrir ferðalanga að hafa með sér nesti og drykk í bakpoka og vera vel búinn þar sem spáð er frosti en á að hlýna um miðjan dag á morgun.  Hver og einn verður á sinni eigin ábyrgð í ferðinni og líklega skiptum við okkur í tvo hópa í ferðinni þar sem hópurinn sem færi hægar yfir myndi fara fram að Þjóðbrókargili eða beygjunni á Selárdalnum en þeir sem eru hraðskreiðari færu eitthvað lengra.  Öllum er velkomið að slást í hópinn og koma með í skemmtilega ferð og njóta útiveru og hreyfingar í fallegu umhverfi Selárdals.

02.04.2013 21:07

10 km skíðabraut í Selárdal

Í dag var lögð 10 km braut í Selárdal.  Brautin er sú sama og gengin var í Arionbankamótinu og Sparisjóðsmótinu þ.e. 5 km.  Í dag var bætt við lykkju með snjósleða og spora, sem fylgir Strandagöngubrautinni fram að Gilsstöðum og þaðan fram fyrir Þjóðbrókargil og til baka niður að Geirmundarstöðum.

02.04.2013 20:59

Ný síða Skíðafélagsins

Þá er ný síða Skíðafélagsins komin í gagnið, en kominn var tími á gömlu síðuna sem hefur verið í notkun frá árinu 2006.  Arnar Jónsson Íþrótta- og tómstundafulltrúi Strandabyggðar og framkvæmdastjóri Héraðssambands Strandamanna á heiðurinn að síðunni ásamt nýrri síðu Strandagöngunnar  Arnar fær kærar þakkir frá Skíðafélagi Strandamanna fyrir vel unnin störf við báðar síðurnar.

11.03.2013 17:01

Nýr vefur

Hér er verið að setja upp nýjan vef fyrir Skíðafélag Strandamanna. Sá gamli á blogcentral kerfinu hefur þjónað okkur vel í mörg ár, en nú eru breyttir tímar og innan skamms verður blogcentral kerfinu lokað. Vonandi kemur þessi nýji vefur til með að reynast okkur vel og vera góð upplýsingaveita til allra þarna úti sem eru áhugasamir um starfsemi Skíðafélagsins!

Flettingar í dag: 86
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 49
Gestir í gær: 33
Samtals flettingar: 100343
Samtals gestir: 30326
Tölur uppfærðar: 31.10.2020 20:15:19