Nú styttist í Fossavatnsgönguna sem haldin verður á Ísafirði 4. maí og er fólk hvatt til að skrá sig sem fyrst í gönguna. Útlit er fyrir fjölmenna göngu og hefur fjöldi erlendra keppenda skráð sig til leiks. Hægt er að skrá sig í gegnum heimasíðu göngunnar fossavatn.com
Það er ekki úr vegi að rifja upp árangur Strandamanna í göngunni í fyrra þar sem það komst ekki í verk eftir gönguna hjá undirrituðum vegna sauðburðaranna. Níu strandamenn tóku þátt í göngunni og var árangur þeirra eftirfarandi:
Í 7 km göngu karla var Stefán Snær Ragnarsson í 1. sæti á tímanum 23.20 mínútum og var hann 1.44 mínútum á undan næsta keppanda. Friðrik Heiðar Vignisson var 6. á tímanum 27.41 mínútum og Jón Haukur Vignisson var 16. á tímanum 33.46 mínútur.
Í 10 km göngu karla náði Númi Leó Rósmundsson 3. sæti á tímanum 45.04 og var hann aðeins 1.10 mínútum á eftir 1. manni. Branddís Ösp Ragnarsdóttir var einnig þriðja í kvennaflokki í 10 km á tímanum 47.38 og var 3.40 mínútum frá 1. sætinu.
Í 20 km göngu í flokki karla 35-49 ára varð Vignir Örn Pálsson 5. af 15 keppendum á tímanum 1.30.27.
Í 50 km göngu í flokki karla 35-49 ára náði Birkir Þór Stefánsson 6. sæti af 21 keppanda á tímanum 3.08.30 og var hann aðeins rúmum 5 mínútum á eftir sigurvegaranum og aðeins tæpum 2 mín. á eftir fyrsta Íslendingnum í göngunni. Í sama flokki var Ragnar Bragason 10. á tímanum 3.23.09. Í flokki karla 50-64 ára náði Rósmundur Númason 6. sæti af 14 keppendum á tímanum 4.08.57.
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is