Færslur: 2013 Apríl

19.04.2013 21:48

Boðganga á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag 21. apríl kl. 17 verður haldin boðganga í Selárdal.  Fyrirkomulag verður svipað og verið hefur undanfarin ár, 3 eru í hverju liði og raðað í lið þannig að þau verði sem jöfnust að styrkleika.  Boðgangan er um leið firmakeppni þar sem fyrirtæki geta keypt sér lið.  Þeir sem ætla að taka þátt í boðgöngunni hafi samband við Ragnar í síma 8933592 eða senda póst á netfangið [email protected] einnig er auglýst eftir fyrirtækjum sem hafa áhuga á að kaupa lið.

 

Á morgun laugardaginn 20 apríl er ætlunin að ganga fram að Gilsstöðum á skíðum og ætlar Rósmundur að bjóða þar skíðamönnum upp á hressingu og skoðunarferð í húsið á Gilsstöðum sem nýlokið er við að byggja.  Öllum er velkomið að slást í hópinn og verður lagt af stað frá Brandsholti kl. 17.

16.04.2013 12:38

Orkugangan laugardaginn 20. apríl

Orkugangan verður haldin laugardaginn 20. apríl.  Nánari upplýsingar eru á heimasíðu göngunnar Orkugangan.is

13.04.2013 23:44

Fossavatnsgangan

Nú styttist í Fossavatnsgönguna sem haldin verður á Ísafirði 4. maí og er fólk hvatt til að skrá sig sem fyrst í gönguna.  Útlit er fyrir fjölmenna göngu og hefur fjöldi erlendra keppenda skráð sig til leiks.  Hægt er að skrá sig í gegnum heimasíðu göngunnar fossavatn.com

 

Það er ekki úr vegi að rifja upp árangur Strandamanna í göngunni í fyrra þar sem það komst ekki í verk eftir gönguna hjá undirrituðum vegna sauðburðaranna.  Níu strandamenn tóku þátt í göngunni og var árangur þeirra eftirfarandi: 

Í 7 km göngu karla var Stefán Snær Ragnarsson í 1. sæti á tímanum 23.20 mínútum og var hann 1.44 mínútum á undan næsta keppanda.  Friðrik Heiðar Vignisson var 6. á tímanum 27.41 mínútum og Jón Haukur Vignisson var 16. á tímanum 33.46 mínútur.

Í 10 km göngu karla náði Númi Leó Rósmundsson 3. sæti á tímanum 45.04 og var hann aðeins 1.10 mínútum á eftir 1. manni.  Branddís Ösp Ragnarsdóttir var einnig þriðja í kvennaflokki í 10 km á tímanum 47.38 og var 3.40 mínútum frá 1. sætinu. 

Í 20 km göngu í flokki karla 35-49 ára varð Vignir Örn Pálsson 5. af 15 keppendum á tímanum 1.30.27.

Í 50 km göngu í flokki karla 35-49 ára náði Birkir Þór Stefánsson 6. sæti af 21 keppanda á tímanum 3.08.30 og var hann aðeins rúmum 5 mínútum á eftir sigurvegaranum og aðeins tæpum 2 mín. á eftir fyrsta Íslendingnum í göngunni.  Í sama flokki var Ragnar Bragason 10. á tímanum 3.23.09.  Í flokki karla 50-64 ára náði Rósmundur Númason 6. sæti af 14 keppendum á tímanum 4.08.57.

12.04.2013 13:34

Skiptiganga á morgun laugardag 12. apríl

Ef veður leyfir verður haldin skiptiganga á morgun laugardaginn 13. apríl í Selárdal kl. 14.  Í skiptigöngu er fyrst genginn 1 hringur með hefðbundinni aðferð og síðan skipt um skíði og annar hringur genginn með frjálsri aðferð.  Mótið er um leið héraðsmót í skíðagöngu og er haldið sameiginlega af HSS og SFS.  Veður hefur verið heldur óstöðugt síðustu daga en útlit er fyrir að rofi til á morgun þannig að hægt verði að halda mótið.  Fylgist með fréttum á þessari síðu því ef veðurútlit breytist gæti tímasetningin breyst.

08.04.2013 11:26

20 km braut í Selárdal

Í gær fórum við í ferð fram á Selárdal og gengum fram að fremra-Hvanneyrargili í frábæru veðri og færi.  Ferðin frameftir tók klukkutíma og fimmtíu mínútur en bakaleiðina fórum við á fimmtíu mínútum.  Alls voru 15 manns sem fóru í ferðina og var yngsti skíðakappinn aðeins 8 ára gamall.   Lagt var spor með sleða og spora og ætti það að vera í lagi í dag ef einhver hyggur á skíðaferð í dag.  Leiðin er ca 20 km ef farið er af Brandsholti.

06.04.2013 21:02

Góður árangur hjá Birki á SMÍ

Í dag keppti Birkir Þór Stefánsson í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð á Skíðamóti Íslands sem haldið er á Ísafirði.  Birkir átti góða göngu og gekk á tímanum 35.35 mínútum sem tryggði honum 5. sætið af 13 keppendum og var hann 3.45 mínútum á eftir sigurvegaranum Sævari Birgissyni frá Ólafsfirði.  Nánari úrslit úr göngunni eru á heimasíðu Skíðafélags Ísafjarðar snjór.is.

06.04.2013 12:48

Óbyggðaferð á morgun

Á æfingatíma á morgun sunnudaginn 7. apríl stendur Skíðafélag Strandamanna fyrir skíðagönguferð fram Selárdal.  Áætlað er að leggja af stað frá Geirmundarstöðum kl. 13 og tekur ferðin líklega 2-3 tíma.  Farið verður á sleða með spora með hópnum og gert spor en einnig er ágætt færi til að skauta.  Ágætt er fyrir ferðalanga að hafa með sér nesti og drykk í bakpoka og vera vel búinn þar sem spáð er frosti en á að hlýna um miðjan dag á morgun.  Hver og einn verður á sinni eigin ábyrgð í ferðinni og líklega skiptum við okkur í tvo hópa í ferðinni þar sem hópurinn sem færi hægar yfir myndi fara fram að Þjóðbrókargili eða beygjunni á Selárdalnum en þeir sem eru hraðskreiðari færu eitthvað lengra.  Öllum er velkomið að slást í hópinn og koma með í skemmtilega ferð og njóta útiveru og hreyfingar í fallegu umhverfi Selárdals.

02.04.2013 21:07

10 km skíðabraut í Selárdal

Í dag var lögð 10 km braut í Selárdal.  Brautin er sú sama og gengin var í Arionbankamótinu og Sparisjóðsmótinu þ.e. 5 km.  Í dag var bætt við lykkju með snjósleða og spora, sem fylgir Strandagöngubrautinni fram að Gilsstöðum og þaðan fram fyrir Þjóðbrókargil og til baka niður að Geirmundarstöðum.

02.04.2013 20:59

Ný síða Skíðafélagsins

Þá er ný síða Skíðafélagsins komin í gagnið, en kominn var tími á gömlu síðuna sem hefur verið í notkun frá árinu 2006.  Arnar Jónsson Íþrótta- og tómstundafulltrúi Strandabyggðar og framkvæmdastjóri Héraðssambands Strandamanna á heiðurinn að síðunni ásamt nýrri síðu Strandagöngunnar  Arnar fær kærar þakkir frá Skíðafélagi Strandamanna fyrir vel unnin störf við báðar síðurnar.

  • 1
Flettingar í dag: 172
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 65
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 27728
Samtals gestir: 3298
Tölur uppfærðar: 5.12.2022 03:39:51