Þar sem veður hefur verið mjög óhagstætt undanfarnar vikur hefur mótaskráin raskast mikið hjá okkur, því þarf að breyta mótaskrá í samræmi við það og ef veður leyfir verður haldin sprettganga á morgun laugardaginn 1. mars kl. 12 í Selárdal, gengið verður með hefðbundinni aðferð. Mótið verður með sama sniði og undanfarin ár, fyrst verður ræst út í hverjum aldursflokki fyrir sig og í lokin verður ræst út í opnum flokkum karla og kvenna með forgjöf.
Skíðagöngunámskeið sem auglýst hefur verið, verður samkvæmt áætlun á morgun í Selárdal kl. 14. Allir velkomnir.
Við minnum á aðalfund Skíðafélags Strandamanna sem haldinn verður í kvöld kl. 8 í kaffistofu Hólmadrangs á Hólmavík. Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf. Nýir félagar eru sérstaklega velkomnir.
Þar sem veðurspáin fyrir helgina er ekki góð er Skíðafélagsmóti með hefðbundinni aðferð sem samkvæmt mótaskrá átti að vera á laugardaginn 22. febrúar frestað um óákveðinn tíma.
Skíðagöngunámskeið sem auglýst hefur verið er þó enn á dagskrá á morgun laugardaginn 22. febrúar kl. 15 en ef veðurútlit versnar meir verður því frestað, fylgist með upplýsingum hér á þessari síðu eða hafið samband við Rósmund í síma: 8921048
Skíðagöngunámskeið
Skíðafélag Strandamanna auglýsir skíðagöngunámskeið fyrir almenning næstu helgar fram að Strandagöngu sem haldin verður 15. mars. Fyrsta námskeiðið verður haldið laugardaginn 22. Febrúar kl. 15 í Selárdal. Yfirleiðbeinandi á námskeiðinu verður hinn fimmfaldi Vasafari Rósmundur Númason. Möguleiki verður á að fá lánaðan skíðaútbúnað (skíði, stafi og skó) á námskeiðinu en þá þarf að hafa samband við Rósmund áður. Kennd verða undirstöðuatriði í hefðbundinni skíðagöngu. Rósmundur tekur við skráningum á námskeiðin í síma 8921048 eða á facebook. Hægt er að mæta á öll námskeiðin eða einungis eitt skipti. Námskeiðin verða á eftirtöldum dögum:
Laugardagurinn 22. Febrúar kl. 15
Laugardagurinn 1. Mars kl. 14
Laugardagurinn 8. Mars kl. 15
Tímasetningar geta breyst ef veður er óhagstætt og eru þá sunnudagar til vara. Nánari upplýsingar verða á þessari síðu
Í dag mánudaginn 17. febrúar er 6 km braut í Selárdal. Aðstæður eru frábærar, gott rennsli og neglufatt á multigradeklístri. Veðrið í dag er einnig mjög gott logn og 3 gráðu frost, ekki er sólbráð í brautinni þar sem sólin er ennþá það lágt á lofti og brautin liggur að mestu leyti með fram fjallshlíðinni. Brautin er að hluta til sú sama og var gengin í Strandagöngunni í fyrra og er kominn nægur snjór núna til að leggja svipaða braut og í Strandagöngunni í fyrra þ.e. alla leið fram að Gilsstöðum.
Aðalfundur Skíðafélags Strandamanna verður haldinn í kaffistofu Hólmadrangs á Hólmavík föstudaginn 21. febrúar kl. 20. Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.
Stjórn Skíðafélags Strandamanna
Í dag miðvikudaginn 5. febrúar verður troðinn ca 3 km braut í Selárdal tilbúin kl. 15.
Á síðuna er komið myndaalbúm með myndum úr fjallaferð sem farin var fram Selárdal 7. apríl 2013. Lagt var af stað af bílastæðinu á Brandsholti um kl. 13.30 og gengið fram Selárdalinn, um kl. 15.20 var snúið við Kringlugil og komið aftur á Brandsholt rúmlega klukkutíma síðar. Gengnir voru 9 km fram dalinn og aftur til baka eða samtals 18 km. Með í för var snjósleði Skíðafélagsins með spora aftaní. Ökumaður sleðans var Kristján Tryggvason.
Síðastliðinn vetur fórum við í 3 fjallaferðir og voru þær allar í apríl í nægum snjó og frábærum aðstæðum. Ein ferðin var farin fram að Gilsstöðum þar sem nýja húsið var skoðað undir leiðsögn Rósmundar og þar snæddum við nestið okkar, að því loknu gengum við hátt upp í hlíðina austanverða og fengum frábært rennsli aftur niður í dalinn áleiðis að Brandsholti.
Í síðustu ferðinni fórum við fram Selárdalinn að Kópsstaðagili og fórum upp með því alla leið upp úr dalnum, síðan var gengið upp í heiðina þar til víð sáum yfir að sæluhúsinu á Trékyllisheiði og endað á löngu rennsli niður að Bólsstað, þaðan var svo gengið fram á Brandsholt.
Mótaskrá fyrir veturinn er komin á síðuna í henni eru 8 heimamót auk Strandagöngunnar og einnig þau mót sem Strandamenn eru líklegir til að taka þátt í. Samkvæmt mótaskránni er fyrsta mót vetrarins Skíðafélagsmót með frjálsri aðferð sem haldið verður í Selárdal 8. febrúar.
Það er búið að setja inn á síðuna úrslit úr 4 mótum sem haldin voru síðastliðinn vetur. Til að sjá þau er smellt á úrslit hér efst á síðunni.
Undir liðnum myndaalbúm hér efst á síðunni hafa verið settar myndir frá Arionbankamóti sem haldið var 28. mars 2013 og Sparsjóðsmóti sem haldið var 1. apríl 2013
Skíðaæfingar hjá Skíðafélagi Strandamanna verða þrisvar í viku í vetur:
Miðvikudagar kl. 17.30-18.30
Föstudagar kl. 17-18.30
Sunnudagar kl. 14-15.30
Æfingar verða í Selárdal ef veður og snjóalög leyfa, ef veður er of slæmt til að hægt sé að fara á skíði verður farið á línuskauta í íþróttahúsinu á Hólmavík. Sent verður sms í síðasta lagi í hádeginu daginn sem æfingin er varðandi það hvort af æfingu verður og hvar hún verður haldin. Þeir sem hafa áhuga á að vera með og fá sms um æfingarnar geta hringt eða sent sms í síma hjá Ragnari Bragasyni en númerið er 8933592. Börnum á leikskólaaldri er velkomið að vera með en gert er ráð fyrir því að þau séu í fylgd foreldris á æfingunni. Á æfingunum verður kennd skíðaganga bæði með hefðbundinni aðferð og frjálsri aðferð. Hver æfing byrjar á upphitun, farið er í tækniæfingar, gengið stafalaust og mikil áhersla er á að fara í skemmtilega skíðaleiki. Það fer mikið eftir aðstæðum hvert viðfangsefnið er á hverri æfingu en miðað er við að þegar færið er gamall snjór (klísturfæri) þá er frjáls aðferð (skaut) en þegar er nýr snjór (baukafæri) er æfingin með hefðbundinni aðferð.
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is